Úrslit dagsins í Unbroken deild karla

Mynd: Blakdeild Aftureldingar

Tveir leikir voru á dagskrá í Unbroken deild karla í dag. Vestri tók á móti Völsungi og þá mættust Afturelding og Þróttur Fjarðarbyggð.

Dagurinn hófst á leik Vestra og Völsungs en það voru gestirnir frá Húsavík sem hófu þann leik betur. Eftir jafna byrjun í fyrstu hrinu þá tókst gestunum að halda út og unnu Völsungur fyrstu hrinu 25-21. Heimamenn snéru taflinu við í annarri hrinu en þar var jafnt á öllum tölum nánast alla hrinuna. Hvorugu liðinu tókst að ná í meira en tveggja stiga forskot fyrr en í lokastiginu sem skilaði Vestra sigri 25-22.

Aftur snérist leikurinn við í þriðju hrinu en þá komust Völsungur í góða stöðu 7-1. Vestra tókst hinsvegar að jafna og eftir æsispennandi hrinu þá voru það heimamenn sem höfðu betur 25-23.  Völsungur náði svo að jafna leikinn með sigri í fjórðu hrinu 25-19 og því var farið í oddahrinu. Oddahrinan var hnífjöfn og eftir að hafa verið 10-12 undir þá tókst Vestra að klára leikinn með sigri 15-13 og vinna því leikinn 3-2.

Vestri – Völsungur 3-2 (21-25, 25-22, 25-23, 19-25, 15-13)

Stigaskor úr leiknum er ekki aðgengilegt

 


 

Seinni leikur dagsins var svo viðureign Aftureldingar og Þróttar Fjarðarbyggðar en leikurinn fór fram í Mosfellsbæ.

Leikurinn fór vel af stað og var fyrsta hrina æsispennandi, Afturelding hafði forskot nánast alla hrinuna en gestirnir gáfu hinsvegar ekkert eftir. Afturelding hélt út og vann fyrstu hrinu 25-22. En eins og fyrsta hrina var spennandi þá var önnur hrina jafn óspennandi því þar vann Afturelding yfirburðar sigur. Eftir að hafa komist yfir 10-0 þá gjörsamlega valtaði Afturelding yfir gestina 25-9.

Margir hefðu nú haldið að Þróttur Fjarðarbyggð hefði lagt árar í bát og gefist upp eftir aðra hrinu en sú varð ekki raunin. Eftir mikla baráttu þá tókst Þrótti að vinna þriðju hrinu 25-23 og halda sér inní leiknum. Þróttarar komu svo sterkir inn í fjórðu hrinu en Afturelding steig á bensíngjöfina undir miðja hrinu og kláruðu leikinn með sigri 25-18.

Afturelding – Þróttur Fjarðarbyggð 3-1 (25-22, 25-9, 23-25, 25-18)

Stigahæstur í leiknum var Hafsteinn Már Sigurðsson leikmaður Aftureldingar með 20 stig. Stigahæstur í liði Þróttar Fjarðarbyggðar var Raul Garcia Asensio með 17 stig.