Þróttur Fjarðabyggð tók á móti HK í bæði karla- og kvennaflokki í dag. Veðrið setti strik í reikninginn þessa helgina en að lokum náðist að spila í báðum deildum.
Þessa helgina áttu Þróttur F og HK að mætast laugardag í Unbroken deildum karla og kvenna en þar sem ekki var flogið austur náðist ekki að spila á réttum tíma. Leikið var í dag, sunnudag, eftir breyttri dagskrá þar sem karlarnir hófu leik.
Unbroken deild karla – Þróttur F 3-0 HK (25-22, 25-19, 25-12)
HK byrjaði leikinn vel og var hnífjafnt framan af fyrstu hrinu leiksins. Þróttarar voru sterkari á lokakaflanum og svipaða sögu var að segja af annarri hrinu. Þar var jafnt til að byrja með en Þróttur seig fram úr um miðja hrinu og náði 2-0 forystu. Heimamenn höfðu svo þægilegan sigur í þriðju hrinu og unnu leikinn að lokum sannfærandi 3-0. Þróttur Fjarðabyggð er nú með 4 stig eftir þrjá leiki. HK er stigalaust eftir fjóra leiki.
Leonardo Aballay var stigahæstur í liði Þróttar með 14 stig en Raul Garcia Asensio bætti við 13 stigum. Hjá HK var Riccardo Meucci stigahæstur með 9 stig en næstir komu Óskar Benedikt Gunnþórsson og Friðrik Björn Friðriksson með 6 stig hvor.

Unbroken deild kvenna – Þróttur F 0-3 HK (16-25, 12-25, 11-25)
Kvennamegin var spennan ekki eins mikil en lið Þróttar náði ekki að halda í við HK stúlkur. HK náði öruggu forskoti snemma í fyrstu hrinu og var fljótlega ljóst hvert stefndi. HK vann leikinn örugglega 0-3 en öllum hrinum lauk með sannfærandi sigri HK. Kópavogsstúlkur eru á toppi deildarinnar með fullt hús stiga. Þær eru með 12 stig eftir fjóra leiki en leikur dagsins var sá fyrsti hjá Þrótti Fjarðabyggð á þessari leiktíð. Þær eru því án stiga eftir einn leik.
Heiða Elísabet Gunnarsdóttir skoraði 5 stig fyrir Þrótt F og Hrefna Ágústa Marinósdóttir skoraði 4 stig. Hjá HK var Helena Einarsdóttir stigahæst með 13 stig og næst kom Líney Inga Guðmundsdóttir með 8 stig.
Kvennaliðin mætast öðru sinni á morgun en sá leikur hefst klukkan 16:00.