Seinustu helgi fór danska úrvalsdeildin af stað á ný eftir sumarið.
Flest liðin spiluðu sína fyrstu leiki á tímabilinu og ljóst er að spennandi vetur er framundan. Íslendingar eiga fulltrúa í þremur liðum í deildinni, Holte IF, Odense Volleyball og Middelfart VK og byrjuðu öll þrjú liðin tímabilið af krafti. Allt bendir til þess að tímabilið verði bæði spennandi og skemmtilegt með æsispennandi og jöfnum leikjum.
Holte IF
Holte IF – Ikast
Holte IF, þar sem Sara Ósk Stefánsdóttir leikur, hóf tímabilið með sannfærandi sigri þegar liðið tók á móti Ikast á heimavelli laugardaginn 4. október. Holte sýndi styrk sinn strax í upphafi og vann fyrstu hrinuna örugglega 25–10.
Í annarri hrinu komu gestirnir frá Ikast sterkari til leiks og héldu leiknum jafnari, en Holte sigraði þó hrinuna 25–19. Þriðja hrinan var svipuð þeirri fyrri, þar sem bæði lið sýndu mikla baráttu, en Holte hafði aftur betur og vann hrinuna 25–17. Holte IF sigraði þar með leikinn 3–0 og tryggði sér sinn fyrsta sigur á tímabilinu.
Leikmaður leiksins var uppspilarinn Taylor Bruns, leikmaður Holte.
Aalborg – Holte IF
Sunnudaginn 12. október fóru leikmenn Holte IF í langt ferðalag til Aalborg, sem nýlega hefur tekið sæti í efstu deild eftir árangursrík tímabil í 1. deild. Mikil stemning var í húsinu þar sem heimaliðið lék sinn fyrsta heimaleik í úrvalsdeildinni.
Holte sýndi þó yfirburði frá fyrsta stigi og vann fyrstu hrinuna með yfirburðum, 25–10. Yfirburðir Holte héldu áfram í næstu hrinum, sem liðið sigraði 25–15 og 25–9, og lauk leiknum því með sannfærandi 3–0 sigri Holte IF.
Næsti leikur Holte IF fer fram sunnudaginn 19. október kl. 14:00 (íslenskur tími) á heimavelli, þegar liðið tekur á móti Brøndby VK.

Odense Volleyball
Odense Volleyball – Hvidovre VK
Odense Volleyball, þar sem þeir Galdur Máni Davíðsson og Máni Matthíasson leika, hófu tímabilið föstudaginn 10. október með æsispennandi heimaleik gegn Hvidovre VK. Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu og jöfnum hrinum, en Odense voru sterkari og tryggðu sér sigur 3–0 ( 25–23, 27–25 og 25–22.)
Odense Volleyball hefur því tryggt sér sinn fyrsta sigur á tímabilinu, en næsti leikur liðsins fer fram laugardaginn 18. október kl. 13:00 (íslenskur tími) á heimavelli gegn ASV Elite og má þar búast við hörkuspennandi leik.

Middelfart VK
Middelfart VK – Gentofte
Middelfart VK, þar sem Hreinn Kári Erluson leikur, hafa farið frábærlega af stað á tímabilinu og unnið fyrstu tvo leiki sína gegn sterkum anstæðingum. Fyrsti leikur liðsins var gegn Gentofte laugardaginn 4. október, þar sem liðin skiptust á að leiða leikinn. Middelfart VK höfðu betur og tryggðu sér sigur 3–1 ( 23–25, 25–22, 25–23 og 27–25)
Middelfart VK – ASV Elite
Laugardaginn 11. október, tók Middelfart á móti ASV Elite á heimavelli sínum. Leikurinn var jafn og spennandi frá upphafi til enda. Middelfart VK sigruðu fyrstu tvær hrinurnar 25–19 og 25–21, en ASV Elite svaraði fyrir sig og jafnaði í 2–2 ( 25–19 og 25–15). Í oddahrinu sýndi Middelfart mikinn karakter og unnu hrinuna 15–12, og þar með leikinn 3–2.
Næsti leikur Middelfart VK fer fram föstudaginn 17. október kl. 17:30 (íslenskur tími) þegar liðið heimsækir VK Vestsjælland.

Fylgstu með leikjum dönsku úrvalsdeildarinnar
Hægt er að fylgjast með öllum leikjum og beinum útsendingum dönsku úrvalsdeildarinnar á:
https://jfmplay.dk/volleyball