Sigur hjá íslendingunum í Danmörku

Seinasta helgi var lífleg í dönsku deildinni þar sem alls voru spilaðir sex leikir, þar á meðal leikir liða íslensku leikmannanna í Danmörku.


VK Vestsjælland – Middelfart VK

Föstudaginn 17. október heimsótti Middelfart VK, þar sem Hreinn Kári spilar, lið VK Vestsjælland í þriðja leik sínum á tímabilinu.

Leikurinn byrjaði jafn, en gestirnir frá Middelfart tóku fljótt frumkvæðið og byggðu upp góða forystu um miðja hrinuna, 10-17. Þeir héldu dampi og unnu fyrstu hrinuna örugglega 15-25.

Middelfart hélt áfram á sömu braut í annarri hrinu, þar sem þeir leiddu 7-16 og lokuðu hrinunni 17-25.

Þriðja hrina var jafnari, en heimamenn náðu að snúa leiknum sér í vil og unnu 25-18.

Fjórða og síðasta hrina var spennandi fram að lokum, en Middelfart sýndi styrk sinn og kláraði leikinn 21-25 og þar með sigur 1-3.

Stigahæstur hjá Middelfart VK var Andrew Deardorff með 17 stig, en Kalle Madsen var stigahæstur hjá VK Vestsjælland með 16 stig.

Middelfart VK situr nú á toppi deildarinnar með þrjá sigra í þremur leikjum. Næsti leikur liðsins verður 8. nóvember þegar þeir mæta Amager Volley á útivelli í Kaupmannahöfn.


Odense Volleyball – ASV Elite

Laugardaginn 18. október fengu Odense Volleyball þar sem að þeir Galdur Máni og Máni Matthíasson spila, ASV Elite í heimsókn á heimavöll sinn.

Gestirnir komu ákveðnir til leiks og tóku fyrstu hrinuna 17-25.

Önnur hrina var jöfn og spennandi, en ASV Elite höfðu betur í upphækkun 25-27.

Odense Volleyball svaraði vel fyrir sig, og eftir dramatíska þriðju hrinu unnu þeir 32-30 í upphækkun.

Fjórða hrinan var svo afar sannfærandi hjá heimamönnum sem sigruðu 25-13 og jöfnuðu leikinn 2-2.

Oddahrinan var æsispennandi allan tímann, en Odense Volleyball voru sterkari og lokuðu hrinunni 18-16 í upphækkun og vann leikinn 3-2.

Stigahæstur hjá Odense Volleyball var Anton Lydolff með 26 stig, en hjá ASV Elite skoraði Magnus Brandi 21 stig.

Næsti leikur Odense Volleyball er Sunnudaginn 25. október, þegar þeir mæta Gentofte Volley í Kaupmannahöfn.


Holte IF – Brøndby VK

Sunnudaginn 19. október tóku Holte IF á móti Brøndby VK á heimavelli.

Holte byrjaði leikinn með miklum krafti og yfirburðum, og vann fyrstu hrinuna örugglega 25-11.

Brøndby konur byrjuðu aðra hrinuna vel og leiddu 0-4. Holte jöfnuðu Brøndby í stöðunni 6-6 og voru liðin jöfn eftir það upp að stöðunni 14-14. Þá settu Holte konur í lás og komu sér í 21-14 forystu. Holte lokuðu hrinunni 25-16.

Þriðja hrina var að sama skapi og sú fyrsta þar sem að Holte voru með yfirhöndina frá byrjun. Heimakonur lokuðu hrinunni 25-15 og sigruðu þar með leikinn 3-0.

leikmenn leiksins voru þær Frida Brinck og Taylor Bruns.

Næst bíður Holte IF stórleikur í Evrópukeppninni CEV Challenge Cup, þar sem þær mæta VA Uniza Zilina í Slóvakíu miðvikudaginn 29. október.


 Önnur úrslit helgarinnar

Karlar:

  • Hvidovre VK 3–0 Amager Volley

Konur:

  • Aalborg Volley 0–3 ASV Elite

  • DHV Odense 0–3 Gentofte Volley