Tveir leikir fóru fram í Unbroken deild kvenna í kvöld. Völsungur og KA mættust á Húsavík en Afturelding tók á móti Þrótti Reykjavík / BFH.
Völsungur 1-3 KA (17-25, 25-22, 21-25, 19-25)
Í fyrri leik kvöldsins mættust nágrannar Völsungs og KA. Jafnræði var með liðunum framan af fyrstu hrinu en um miðbik hennar átti KA frábæran kafla og náði 5 stiga forystu. Mestur varð munurinn 9 stig og KA vann þægilegan 17-25 sigur. Í annarri hrinu leiddi Völsungur nánast frá upphafi hrinunnar en KA átti góðan lokakafla. Þær söxuðu vel á forskot heimakvenna sem höfðu þó 25-22 sigur og jöfnuðu leikinn 1-1.
KA virtist ætla að valta yfir Völsung í þriðju hrinunni en heimaliðið gerði vel undir lok hrinunnar. Ekki dugði það til og KA náði 1-2 forystu með 21-25 sigri í hrinunni. Fjórða hrina þróaðist á svipaðan hátt en KA kláraði af krafti. Hrinunni lauk 19-25 og KA náði í 1-3 sigur á Húsavík.
Afturelding 3-2 Þróttur R / BFH (25-23, 14-25, 22-25, 26-24, 15-5)
Í Mosfellsbæ mætti Afturelding sameinuðu liði Þróttar Reykjavíkur og BFH (Blakfélag Hafnarfjarðar). Leikurinn var sá fyrsti hjá Aftureldingu á tímabilinu en Þróttur/BFH hafði tapað öllum þremur leikjum sínum til þessa. Fyrsta hrina var afar sveiflukennd en 7-1 kafli undir lokin tryggði Aftureldingu sigur í henni. Þróttur sneri taflinu við í annarri hrinu og vann hana auðveldlega. Aftur jafnaðist leikurinn út í þriðju hrinu en liðin skiptust á að hafa forystuna. Nú reyndust gestirnir hlutskarpari á lokakaflanum og Þróttur/BFH leiddi 1-2 eftir þriðju hrinuna.
Enn var jafnræði með liðunum í fjórðu hrinunni en gestirnir voru skrefi framar stærstan hluta hennar. Afturelding reyndist sterkari á lokasprettinum og tryggði sér oddahrinu með 26-24 sigri. Oddahrinan var vægast sagt áhugaverð en Þróttur/BFH leiddi 4-5 þegar allt fór á versta veg hjá liðinu. Afturelding skoraði næstu 11 stig og vann hrinuna 15-5. Afturelding vann leikinn því 3-2 og nælir í 2 stig í sínum fyrsta leik. Þróttur/BFH sótti jafnframt sitt fyrsta stig á tímabilinu.
Eftir leiki kvöldsins er lið KA í öðru sæti Unbroken deildar kvenna með 9 stig eftir þrjá leiki. HK trónir á toppnum með 15 stig eftir 5 leiki og eru því bæði HK og KA með fullt hús stiga. Afturelding fer upp í þriðja sætið með sigrinum í kvöld og Þróttur/BFH fylgir þar á eftir í fjórða sæti. Völsungur er án stiga líkt og Þróttur Fjarðabyggð.
Stöðuna í deildinni, auk frekari upplýsinga um Unbroken deildirnar, má finna með því að smella hér.