Fjörið hélt áfram í Unbroken deildum karla og kvenna í dag. Þrír leikir fóru fram karlamegin og einn kvennamegin.
Dagurinn hófst með leik KA og Vestra á Akureyri. Liðin mættust einnig í gær þar sem að KA vann 3-0 sigur. Svipað var uppi á teningnum í dag en allar hrinur leiksins voru mjög jafnar. Að lokum vann KA annan 3-0 sigur þrátt fyrir mikla baráttu Vestramanna.
Í Neskaupstað mættust Þróttur Fjarðabyggð og Þróttur Reykjavík, einnig í annað sinn þessa helgina. Í gær vann Þróttur R 1-3 sigur og líkt og á Akureyri varð lítil breyting þar á. Gestirnir byrjuðu vel og unnu fyrstu hrinu auðveldlega en eftir það tóku tóku heimamenn við sér. Þeir unnu aðra hrinuna en Reykvíkingar unnu þó næstu tvær nokkuð örugglega. Þróttur R vann því 1-3 sigur og náði því í sex mikilvæg stig fyrir austan.
Síðasti karlaleikurinn var sömuleiðis seinni hluti tvíhöfða þar sem Völsungur tók á móti Hamri. Leik gærdagsins lauk með 1-3 sigri Hamars en Hvergerðingar höfðu enn betri tök á leiknum í dag. Fyrsta hrina vannst nokkuð auðveldlega en Völsungar bitu vel frá sér í þeirri næstu. Hamar vann leikinn 0-3 þrátt fyrir nokkra spennu í seinni hluta leiksins og sækir einnig sex stig norður í land.
Eftir þessa fjölmörgu leiki helgarinnar eru KA og Hamar á toppi deildarinnar. Hamar er í efsta sætinu með 17 stig eftir 7 leiki en KA er með 15 stig eftir aðeins 6 leiki. Þróttur R kemur skammt á eftir með 11 stig eftir 5 leiki. Stöðutöfluna má sjá í heild sinni með því að smella hér.
Kvennamegin var einnig Þróttaraslagur þar sem að Austfirðingar tóku á móti Þrótti Reykjavík / BFH. Bæði lið voru enn án sigurs í deildinni og því var ljóst að hart yrði barist í leitinni að fyrsta sigri tímabilsins. Heimakonur frá Fjarðabyggð byrjuðu betur og unnu fyrstu hrinuna nokkuð sannfærandi áður en Þróttur/BFH jafnaði leikinn með góðri annarri hrinu. Jafnræði var með liðunum í næstu tveimur hrinum en að lokum vann Þróttur/BFH 1-3 sigur og lyfti sér upp í 3. sæti deildarinnar. Liðið er með 4 stig eftir 5 leiki en Þróttur F er á botninum, stigalausar eftir 4 leiki. Stöðu deildarinnar má sjá með því að smella hér.
Úrslit dagsins
Unbroken deild karla
KA 3-0 Vestri (25-22, 25-22, 25-22). Miguel Mateo Castrillo, Ágúst Leó Sigurfinnsson og Marcel Pośpiech skoruðu 12 stig hver fyrir KA. Hjá Vestra var Benedikt Stefánsson sömuleiðis með 12 stig.
Þróttur Fjarðabyggð 1-3 Þróttur Reykjavík (14-25, 25-19, 18-25, 20-25). Raul Garcia Asensio átti stórleik og skoraði 24 stig fyrir Þrótt Fjarðabyggð. Przemyslaw Stasiek átti sömuleiðis stórgóðan leik fyrir gestina og skoraði 20 stig.
Völsungur 0-3 Hamar (17-25, 24-26, 21-25).
Unbroken deild kvenna
Þróttur Fjarðabyggð 1-3 Þróttur R / BFH (25-20, 15-25, 22-25, 20-25). Hrefna Ágústa Marinósdóttir skoraði 13 stig fyrir Þrótt F en Katla Hrafnsdóttir var stigahæst hjá Þrótti R/BFH með 14 stig.