KA vann eftir hörkuleik fyrir norðan

Mynd: Mummi Lú

Einn leikur fór fram í Unbroken deild kvenna í kvöld en þar tók KA á móti Aftureldingu.

Leikur kvöldsins fór fram á Akureyri en norðankonur freistuðu þess að halda sigurgöngu sinni áfram. KA var með fullt hús stiga fyrir leikinn og hafði aðeins tapað einni hrinu í fjórum leikjum sínum til þessa. Afturelding hafði leikið tvisvar, annars vegar unnu þær Þrótt/BFH í oddahrinu og hins vegar töpuðu þær 3-1 gegn toppliði HK. Afturelding þurfti því á sigri að halda til að missa topplið HK og KA ekki langt frá sér strax í upphafi tímabils.

Heimakonur byrjuðu leikinn af krafti og leiddu nokkuð örugglega framan af fyrstu hrinu. Mosfellingar tóku vel við sér eftir miðbik fyrstu hrinu og náðu að vinna hrinuna 22-25 með frábærum lokakafla. Jafnræði var með liðunum í annarri hrinunni en KA seig fram úr og jafnaði leikinn 1-1 eftir æsispennandi lokastig. Meira var um sveiflur í þriðju hrinunni en aftur var það KA sem gerði betur undir lokin og tók 2-1 forystu í leiknum.

Hvorugt lið náði afgerandi forystu í fjórðu hrinunni en KA var þó skrefinu á undan nánast frá upphafi hrinunnar. Munurinn sveiflaðist lítillega en KA leiddi með 2-3 stigum hverju sinni. Enn reyndist KA sterkari aðilinn undir lok hrinunnar en eftir nokkra spennu og æsing sigldi KA 3-1 sigri heim. Þar með heldur KA áfram að raða inn stigum og er með 15 stig eftir 5 leiki. Afturelding er með 2 stig eftir þrjá leiki en situr þó enn í þriðja sæti deildarinnar.

Liðin mætast öðru sinni á morgun en sá leikur hefst klukkan 17:30.