KA hafði betur á heimavelli

Einn leikur fór fram í Unbroken deild karla en þar tók KA á móti HK á Akureyri.

Lið KA er í harðri baráttu á toppi deildarinnar en HK situr hins vegar á botninum í Unbroken deild karla. Það var því ljóst að KA væri sigurstranglegra liðið fyrir leikinn en HK mætti til leiks með nýjan leikmann. Michal Jan Potempa lék með HK í dag og spilaði stærstan hluta leiksins. Hann kemur til með að styrkja ungt lið HK bæði í móttöku og sókn.

Þrátt fyrir liðsstyrkinn byrjaði KA mun betur. Um miðja fyrstu hrinu kom góður kafli hjá HK en það dugði ekki til. KA seig aftur fram úr og vann fyrstu hrinu sannfærandi. Önnur hrina leiksins þróaðist á svipaðan hátt þar sem KA byrjaði vel en HK náði að jafna leikinn mun miðja hrinu. Aftur var lið KA öflugra undir lokin og komst í 2-0 forystu.

Þriðja hrinan var sú jafnasta í leiknum og skiptust liðin á að hafa forystuna framan af. HK hélt vel í heimamenn en það dugði ekki til, KA vann nauman sigur en leikinn sannfærandi, 3-0.

KA 3-0 HK (25-16, 25-17, 25-22).

Eftir leikinn er KA með 18 stig á toppi deildarinnar en HK bíður enn eftir sínu fyrsta stigi. Bæði lið eiga leiki næstu helgi, HK fer á Ísafjörð og mætir Vestra en KA leikur gegn Þrótti Reykjavík í Laugardalshöllinni. Í báðum tilvikum er um að ræða tvíhöfða og liðin mætast öðru sinni á sunnudag.