HK með fullt hús stiga í Unbroken deild kvenna

Einn leikur var að dagskrá í Unbroken deild kvenna í dag en HK tók á móti Aftureldingu í Digranesi.

HK hafði fyrir leikinn í dag leikið 5 leiki á meðan Afturelding hafði aðeins leikið 1 leik, sem verður að teljast mjög undarlegt fyrirkomulag. Skiljanlega mátti sjá á liði Aftureldingar að liðið var ekki nægilega samstillt enda mikið breytt lið frá síðasta tímabili.

HK fór gífurlega vel af stað í leiknum og komst í 6-0 í upphafi fyrstu hrinu. Ekkert gekk upp hjá Aftureldingu og var HK fljótlega komið með 8 stiga forskot, 10-2. HK gáfu fá færi á sér og unnu fyrstu hrinu sannfærandi 25-16.

Meira jafnræði var með liðunum í annarri hrinu en HK hafði þó ávalt forustu. Aftureldingu gekk illa að brjóta á bak góðan varnarleik HK liðsins en gáfust þó aldrei upp og endaði önnur hrina með sigri HK 25-20.

Það mátti sjá mikinn mun á liði Aftureldingar þegar leið á leikinn og komu þær af miklum krafti inn í þriðju hrinu. Sóknarleikur liðsins var mun betri og áttu HK í meiri vandræðum með að verjast öflugum sóknum Aftureldingar. Hrinan var hin mesta spenna og fór svo að lokum að Afturelding hafði betur 25-23.

Spennan hélt áfram í fjórðu hrinu og sýndu bæði lið góða takta sóknar og varnarlega. HK hafði hinsvegar betur að lokum 25-17 og unnu því leikinn 3-1.

HK – Afturelding 3-1 (25-16, 25-20, 23-25, 25-17)

Stigahæst í leiknum var Þórdís Guðmundsdóttir leikmaður HK með 25 stig. Næstar á eftir henni komu Helena Einarsdóttir (HK) með 24 stig og Thelma Dögg Grétarsdóttir (Afturelding) með 20 stig.

HK trónir enn á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir 6 leiki, 18 stig. Afturelding er hinsvegar í þriðja sæti með 2 stig eftir 2 leiki.

Næsti leikur í Unbroken deild kvenna er á morgun, 15.okt þegar KA tekur á móti Þrótti Fjarðarbyggð á Akureyri.