Unbroken deild kvenna hélt áfram í dag með tveimur leikjum. Afturelding og Völsungur mættust öðru sinni þessa helgina og HK tók á móti Þrótti Fjarðabyggð í Digranesi.
Afturelding og Völsungur mættust í gær en þar hafði Völsungur betur og vann 0-3 sigur. Afturelding tók vel við sér eftir tap gærdagsins og vann fyrstu hrinu leiksins eftir sveiflukennda hrinu. Þrátt fyrir sveiflurnar leiddu heimakonur alla hrinuna og tóku 1-0 forystu í leiknum. Völsungur gerði mun betur í annarri hrinunni og leiddi allt þar til um miðja hrinu. Þá tóku Aftureldingarkonur öll völd á vellinum og enduðu á að vinna sannfærandi sigur og leiddu þá 2-0.
Þriðja hrinan byrjaði aftur vel hjá Völsungi og í þetta skiptið hélt liðið út. Staðan var því orðin 2-1 en Afturelding leiddi alla fjórðu hrinuna og vann leikinn þar með 3-1. Liðin sóttu því einn sigur hvort þessa helgina. Afturelding er nú með 5 stig eftir 6 leiki og er liðið komið aftur í 4. sæti deildarinnar. Völsungur er skammt undan með 3 stig en hefur spilað 5 leiki.
Hinn leikur dagsins fór fram í Digranesi þar sem HK tók á móti Þrótti Fjarðabyggð. Þar var um að ræða leik toppliðs HK gegn botnliði Þróttar F. Gæðamunur liðanna sást vel í leiknum en þrátt fyrir góðar skorpur hjá Þrótturum voru HK mun sterkari. Þær unnu allar hrinurnar sannfærandi og leikinn auðveldlega, 3-0.
Bæði lið gerðu töluvert af skiptinum í leiknum og fengu fjölmargir leikmenn að spreyta sig beggja vegna við netið. Vert er að nefna að Þorbjörg Rún Emilsdóttir, sem nýverið var valin í draumalið U19 landsliða á NEVZA, lék sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk HK og skoraði sín fyrstu stig. Þorbjörg á ekki langt að sækja blakhæfileikana en foreldrar hennar eru Emil Gunnarsson og Laufey Björk Sigmundsdóttir.
Úrslit dagsins – 2. nóvember
Afturelding 3-1 Völsungur (25-22, 25-19, 23-25, 25-22). Sóldís Björt Leifsdóttir skoraði 19 stig fyrir Aftureldingu en Taylor Horsfall skoraði 18 stig fyrir Völsung.
HK 3-0 Þróttur Fjarðabyggð (25-11, 25-12, 25-14).
Eftir leiki dagsins er HK á toppnum með fullt hús stiga, 21 stig eftir 7 leiki. KA getur jafnað liðið á toppnum þegar liðið mætir Þrótti R/BFH laguardag 8. nóvember. Afturelding mætir Þrótti R/BFH miðvikudaginn 5. nóvember en Völsungur fer austur helgina 8.-9. nóvember og mætir Þrótti Fjarðabyggð tvívegis. HK leikur næst gegn Aftureldingu þann 19. nóvember.