Sunnudagshugvekjan

Sunnudagshugvekjan Tímamót urðu í sögu blaks á Íslandi þegar að Aganefnd BLÍ setti leikmann Aftureldingar í 10 mánaða leikbann. Engin fordæmi eru fyrir

Sunnudagshugvekjan

Tímamót urðu í sögu blaks á Íslandi þegar að Aganefnd BLÍ setti leikmann Aftureldingar í 10 mánaða leikbann. Engin fordæmi eru fyrir slíkum dómi, en þess ber að geta að umrætt brot varðaði ofbeldi sem telst alvarlegs eðlis og ljóst að þungur dómur táknar alvarleika málsins. Sunnudagshugvekjan mun ekki fjalla um það enda hafa til þess bærir aðilar tekið á málinu og úrskurðað í því.

Sunnudagshugvekjunni er hins vegar ætlað að ræða um þátt útlendinga í íslensku blaki og samskipti þeirra við dómarastéttina. Í grein á Volleyball.is fyrr í mánuðinum þá var þess getið að verið gætu undirliggjandi ástæður fyrir því að upp úr sauð í Mosfellsbænum og í umræðunni hafa komið upp orðin ,,einelti‘‘ og ,,útlendingahatur‘‘. Það kann ekki góðri lukku að stýra að þessi tvö gildishlöðnu orð setji mark sitt á leikinn. Er ekki eðlilegt að spyrja í framhaldinu hvort það sé einhver fótur fyrir slíkum ummælum af hálfu útlendinga sem leika blak hér á landi? Er ekki ennfremur rétt að spyrja dómarana sjálfa hvort að svo sé? Greina þarf vandamálin og koma með lausnir á þeim.

Hvað sem öðru líður þá geta menn ekki látið eins og ekkert sé enda eiga allir að vera jafnir í leik og skiptir þá engu máli kyn, aldur eða þjóðerni. Þetta er skýrt í reglum leiksins. Það er engin ástæða til þess að ætla að dómarar fari ekki sömu höndum um alla leikmenn þegar á hólminn er komið, annað er fásinna. Að sama skapi geta leikmenn ekki búist við því fá sér meðferð í leik. Gagnkvæm virðing þarf hins vegar að ríkja á milli aðila.

Nú er mikilvægt að menn vinni saman og leiti leiða til þess að bæta andrúmsloftið. Hér skiptir mestu að Blaksambandið gangi fram fyrir skjöldu og opni fyrir umræðu um málið. Það gagnast engum að sópa vandamálum undir teppið heldur þarf átak til þess að vinna bug á því, ef það er þá til staðar.

Agi og virðing þarf að ríkja í samskiptum leikmanna og dómara. Leikmenn verða að skilja að dómarar eru mannlegir og þeir geta líka gert mistök undir pressu. Það er engin ástæða til þess að hreyta ónotum í þá, það gerir ástandið bara enn verra eins og dæmin sýna. Það er ekki nóg að leikmenn sýni starfsmönnum leiksins virðingu heldur þurfa þjálfarar og forystumenn einnig að ganga á undan með góðu fordæmi. Það gengur ekki upp að dómarar þurfi að óttast það að mæta á leikstað og verða fyrir áreiti vegna sjálfboðastarfa.

Nú verða menn að snúa bökum saman og fá umræðu á málefnalegum grunni og þar þarf Blaksambandið að vinna með dómurum, leikmönnum auk forsvarsmanna félaganna. Hér þarf aðgerðir og kannski væri best að koma á vinnuhópi til þess að skoða þessi mál. Það þurfa allir hagsmunaaðilar að leggja sitt af mörkum. Opin umræða mun einungis bæta samskipti leikmanna og dómara til lengri tíma litið.

Rétt er að geta þess að þessi hugvekja er ekki skrifuð með það í huga að gagnrýna mann og annan, hvorki forystumenn félaga, leikmenn eða Blaksambandið sem slíkt heldur að hvetja menn til þess að hugsa um umgjörð leiksins og bæta það sem betur má fara.

Oft er lykillinn að bættu samstarfi og skilningi manna í millum falin í meiri umræðu. Þess vegna er þessi sunnudagshugvekja hugsuð sem upphaf en ekki ádeila.


Athugasemdir

Svæði

© VOLLEYBALL.IS 2016