Sunnudagshugvekjan

Sunnudagshugvekjan Blak er einfaldur leikur, leikur sem reynir til hins ýtrasta á samvinnu leikmanna án snertingar við andstæðinginn. Það má því segja að

Sunnudagshugvekjan

Blak er einfaldur leikur, leikur sem reynir til hins ýtrasta á samvinnu leikmanna án snertingar við andstæðinginn. Það má því segja að eitt megineinkenni á blakíþróttinni sé samvinna og samhæfing aðgerða. Boltinn berst hratt manna á milli manna og reynir því mikið á tækni og hraða ákvarðanatöku leikmanna, svona rétt eins í hraðskákinni þegar menn þurfa að reikna út flóknar stöður á nokkrum sekúndubrotum. Eins og oft vill verða í íþróttum þá eru leikmenn misjafnir svona rétt eins og dómararnir sem þurfa að glíma við ógnarhraða leiksins, taka ákvarðanir á örskötsstundu og leysa úr ágreiningsmálum sem upp koma. Það reynir því oft á útsjónarsemi dómara, afburðaskilning og túlkun á leikreglunum, ásamt því að stjórna leiknum sjálfum og sjá til þess jafnræði ríki á milli aðila.

Það kann aldrei góðri lukku að stýra að menn gangi ósáttir frá borði þegar kappleikir eru annars vegar. Séra Friðik þeirra Valsmanna sagði ,,...látið kappið aldrei bera fegurðina ofurliði“ og eru þau orð að sönnu þörf í öllu íþróttastarfi. Því miður verður íþróttamönnum á, þeir eru breyskir en um leið mannlegir eins og við hin. Þeir lenda í aðstæðum sem kunna að vera þeim óhliðhollar, missa stjórn á gjörðum sínum undir mikilli pressu og ná ekki að hemja skap sitt. Stærsti sigur íþróttamannsins er einatt sigurinn yfir sjálfinu, það að hemja reiðina þegar mönnum finnst á sig hallað og því að beina spennunni í réttan farveg. Sjálfsstjórn og sjálfsagi er einnatt einkenni á góðum íþróttamönnum en því miður sanna undantekningarnar að þeir eru misjafnir eins og þeir eru margir. Það breytir hins vegar ekki því að íþróttamenn verða að axla ábyrgð á gerðum sínum í kappleikjum.

Framganga leikmanna inn á vellinum fer eftir reglum og venjum leiksins. Þar er engin einn leikmaður undanskilinn. Allir eru jafnir í leik svona rétt eins og dæmin í daglega lífinu sýna. Til að mynda þurfum við öll að borga í stöðumælin þegar við leggjum bílnum í bílastæði.  Ef menn borga ekki þá eru viðlögin sekt vegna stöðubrots. Stöðumælasjóður leyfir þeim brotlegu að skýra mál sitt og vísa því til úrskurðarnefndar og menn geta þá greint frá málsbætandi ástæðum ef þær eru til staðar. Þetta er gert til þess að tryggja að málið fá sanngjarna meðferð enda ótækt að sömu aðilar kæri og felli síðan dóminn líka. Á fagmáli heitir þetta ,,réttlæti‘‘.

Það vekur athygli að í starfsreglum fyrir aganefnd BLÍ þá segir í ,,3. gr. Úrskurði aganefndar verður ekki áfrýjað.‘‘ Það er engin fyrirgefning hér. Hún er ekki færð til bókar í reglunum. Þetta kemur spánskt fyrir sjónir og klárlega er þetta andstætt venjum og lögum um meðferð mála hjá íþróttahreyfingunni. Jafnvel sá ólánsami sem að borgaði ekki í stöðumælin á rétt á því að mál sé tekið til úrskurðar á öðru dómsstigi. Það er réttur þeirra sem sæta ákæru að fá að vísa henni til æðra dómstigs. Þetta virðist skorta algerlega í reglum BLÍ.  Þeir sem sæta ávirðingum eiga rétt á réttlátri málsmeðferð á fleiru en einu dómsstigi. Annað er afbökun á því sem íþróttir standa fyrir. Blakhreyfingin getur ekki staðið fyrir slíku einhliða réttarfari enda byggir íþróttahugsjónin á réttlæti og jafnræði.

Hagsmunaaðilar mega ekki fara á taugum vegna eins blakleiks. Það þarf að hugsa áður en það er framkvæmt og það er rétt að vekja athygli á því að leikmenn fara ekki sjálfkrafa í lífstíðarbann. Það er ekki andinn í starfsreglum aganefndar BLÍ. Til þess þarf ítrekuð brot eins og segir í 4. grein starfsreglna Aganefndar BLÍ.

 Nú hefur blakdeild Aftureldingar kosið að víkja leikmanninum úr félaginu áður en málið hefur verið tekið fyrir. Ber það vott um visku og vandaða málsmeðferð? Sennilega situr íþróttamaðurinn einhversstaðar í lokuðu skoti, útskúfaður og sér eftir öllu. Hann þarf kannski á hjálp að halda og umfram allt leiðsögn í raunum sínum. Hann hefur gert mistök og framkvæmt hluti sem eru ólíðanlegir. Núna reynir á hjálpsemi og stuðning til þess að beina mönnum inn á réttar brautir, læra af mistökunum og vera öðrum víti til varnaðar.

Gengur það að upp að leikmaður sé rekinn úr félaginu sínu án undangengis dóms og án þess að hafa komið málsbætandi sjónarmiðum sínum á framfæri, jafnvel þó svo að þau kunna að vera lítil og léleg? Gengur það upp að agareglur Blaksambandsins gefi mönnum ekki kost á áfrýjun þegar að málið telst svo alvarlegt að menn telja að við því geti legið lífstíðarkeppnisbann? Jafnvel þeir topp íþróttamenn sem að hafa verið sviptir gullverðlaunum á Ólympíuleikum nútímans eftir lyfjamistnotkun hafa átt þess kost að mál þeirra séu tekin fyrir á æðra dómsstigi.

Það hafa allir sinn rétt, líka þeir sem gleyma að borga í stöðumælinn.

Rétt er að geta þess að þessi hugvekja er ekki skrifuð með það í huga að gagnrýna mann og annan, hvorki forystumenn félaga, leikmenn eða Blaksambandið sem slíkt heldur að hvetja menn til þess að hugsa um umgjörð leiksins og bæta það sem betur má fara.

Fyrirgefningin er til alls fyrst og þess vegna eru þessi skrif  sunnudagshugvekja en ekki ádeila.


Athugasemdir

Svæði

© VOLLEYBALL.IS 2016