Nýrrar nálgunar er þörf

Nýrrar nálgunar er þörf Það er ljóst að eftirtekja íslensku unglingalandsliðanna er rýr eftir að núverandi Norður Evrópumóti unglingalandsliða pilta og

Nýrrar nálgunar er þörf

Frá hæfileikabúðum BLÍ
Frá hæfileikabúðum BLÍ

Það er ljóst að eftirtekja íslensku unglingalandsliðanna er rýr eftir að núverandi Norður Evrópumóti unglingalandsliða pilta og stúlkna U-19 ára lauk um helgina. Stjórn Blaksamband Íslands verður að setjast yfir málin og skoða þau frá grunni og skoða hvað betur má fara, en þess ber að geta að U-19 liðin áttu ágæta spretti inn á milli en sveiflurnar voru greinilega of miklar til þess að árangur næðist.

Það verður hins vegar að taka með í reikninginn að sumir þessara leikmanna eru að stíga sín fyrstu skref og það kom berlega í ljós að íslensku liðin vantar meiri leikreynslu og það er greinilega þörf á fleiri alvöru leikjum áður en haldið er í alþjóðleg mót. Þetta eru svo sem engin ný sannindi, en við getum hins vegar velt því fyrir okkur hvort að tæknin og grunnþjálfunin sé sambærileg og hjá hinum Norðurlandaþjóðunum. Við verðum einnig að spyrja hvort núverandi fyrirkomulag þrói langtímagetu leikmanna og skili framtíðar A-landsliðsmönnum? Þetta er sennilega eitt af lykilatriðunum, en fleira stendur útaf, t.d. reka Svíar, Finnar og Norðmenn sérstaka framhaldsskóla þar sem að unglingunum er smalað saman þar sem þau stunda nám og æfa blak allan veturinn. Það má því ljóst vera að samkeppnisforskotið er mikið hjá leikmönnum þessara þjóða en þeir hafa þess utan betri tækni og meiri leikreynslu.

Á sama tíma eru íslensku unglingaliðin að hefja undirbúning nokkrum vikum fyrir mót. Það er í lófa lagið að leiða út framhaldið og fá út hvernig okkar liðum reiðir af í harðri samkeppni. Það breytir engu hvað þjálfarinn heitir eða hversu góður hann er þegar þjálfun og undirbúningur eru alltaf takmarkandi þáttur í starfinu. Það hlýtur því að vera réttlát spurning hvort þetta þurfi að vera svona?

Gæði starfssins eru oft mæld í þeim árangri sem að landsliðin ná og það hlýtur að vera íslensku blakfélögunum og Blaksambandinu áhyggjuefni að hafa skrapað botninn í NEVZA samstarfinu enn eitt árið. Við eigum að hafa meiri metnað og við eigum að rækta unglinganna til framtíðar og ná árangri með þeim í gegnum áþreifanleg markmið. Afreksstarfið á að vera krefjandi og lúta stefnu til næstu 4-8 ára þar sem afrekshópar eru myndaðir skipulega og þeim stýrt markvisst með það fyrir augum að eignast samkeppnishæfa leikmenn.

Það er líka umhugsunarefni hvort að þessi NEVZA mót skili nægjanlegu miklu til baka miðað við fjárfestinguna og spurning hvort það sé hreinlega ekki betra að gera út á unglingalandsliðsstarfið á vorin þegar starfið er í hámarki. Það er líka eðlilegt að spyrja hér hvort að það sé vit í því að láta unglingana vera í limbói í 4 - 5 mánuði án nokkurar keppni og síðan er haldið beint í mót? Hér er t.d. athugunarefni hvort að BLÍ geti haldið alþjóðleg mót á Íslandi til þess að auka áhugann og gefa unglingum meiri tækifæra til þess að takast á við jafnaldra sína. Auðvitað er hér um að ræða metnaðarfullt markmið sem betra er að skrifa um en framkvæma.  Það er klárt mál að það er erfitt að byrja tímabilið með þvi að undirbúa lið til keppni eftir að hafa verið í löngu fríi. Blaksambandið og félögin mega ekki sofa á sumrin það er tími undirbúnings og vinnu.

Lykilspurningin er hvort hægt sé að breyta þessum dagsetninum innan NEVZA og athuga hvort að hægt sé að fá þetta til þess að falla betur að hápunkti leiktímabilsins hérna heima, en auðvitað hafa menn stöðugar áhyggjur af skólastarfinu á þessum tíma.  Þessu eru líka misjafnt farið hjá samstarfsþjóðunum, en menn verða að hafa fyrir hlutunum og sjá hvað er hægt að gera til þess að nýta tíma og fjármuni betur. Það gengur heldur ekki að sitja með hendur í skauti sér og sætta sig við núverandi ástand til langframa. Það er ekki ávísun á velgengni eins og við höfum fengið að reyna í áratugi í þessu samstarfi.

Það er ljóst að efnahagur Blaksambandsins er með þeim hætti að það er varla hægt að halda úti landsliðsstarfi svo vit sé í og ljóst að Ísland hefur náð botninum og þaðan er einungis hægt að stefna hærra. Það er eðlilegt að spyrja hvað sé að í starfinu þegar að unglinga- og A-landslið Íslands hafa skilað af sér árinu 2010 og þegar rýnt er í tölfræðina þá sést glögglega að eftirtekjan er rýr. Við eigum góð íþróttamannvirki og höfum flest en það vantar meiri aga og forystu til þess að knýja á um umbætur.

Afreksstarfið á aldrei að lúta ,,málamiðlunum" en þess ber að geta að sérsamband eins og BLÍ hefur ekki úr miklu að spila og starfið snýst því að miklu leyti um málamiðlarnir og það er hinn kaldi veruleiki. Það þýðir hinsvegar ekki að ekki sé hægt að gera betur það verður alltaf að vera markmiðið.

 

 

 


Athugasemdir

Svæði

© VOLLEYBALL.IS 2016